Gömul saga

Ætla að setja hérna inn gamla sögu sem ég skrifaði í fréttabréf Actavis eftir fyrstu ferðina mína á Hvannadalshnúk ..

 

Svo haldið þið línunni strekktri!!“ þrumaði Arnar, hann var leiðsögumaðurinn okkar.Í hvað var maður kominn? Staddur uppi á jökli, skyggni minna en ekki neitt, kominn í sigbelti með mannbrodda og ísöxi fasta á bakpokanum. Og nú var búið að festa mann við aðra sem voru í sömu sporum .Við vorum saman í línu, Júlli, Hilmar, Tryggvi, undirritaður, Krístín H., Susanne E., Helga H. og Björn T.

„Bless Hafrún“ heyrðist í Tryggva, hann var staðráðinn í að vera á undan þróunarstjóranum á toppinn.

Jæja, ég vissi það svo sem þegar Júlli spurði hvort ég hefði áhuga á svona ferð að veðrið gæti verið misjafnt en ég ætlaði að vera þarna í sól og sumaryl eða því sem næst, ekki í miðju skýjaþykkni þar sem eini liturinn sem sást (ef maður horfði ekki á ferðafélagana) ... var GRÁHVÍTT !!

Já, sem betur fer sáu sumir ekki hvað brekkurnar voru langar því þá hefði þeim fallist hendur og rennt sér á rassinum til baka í stað þess að skoða jökulsprungur af mikilli ákefð (gott að það var traust fólk í línunni).

Eftir smá bras og þvæling til að komast fram hjá sprungum vorum við allt í einu komin upp í 1900 metra hæð og „þunna loftið farið að segja til sín, að minnsta kosti blés maður eins og hvalur J. Við vorum náttúrulega fremst og þurftum að finna rétta leið og það tók stundum á að þurfa að vera að fara upp og niður en það tókst.

Jæja, þá varð það sléttan mikla, bara beint strik á hnjúkinn. Reyndar var þetta svolítið hlykkjótt hjá okkur en það var bara vegna þesa að leiðsögumaðurinn var svolítið vinstrisinnaður á göngunni (en menn sem hoppa úr þyrlu til að bjarga öðrum mega alveg ganga til vinstri mín vegna) en að lokum komum við að hnjúknum sjálfum. HVANNADALSHNJÚKUR gnæfði yfir okkur tignarlegur að vanda, við bara sáum það ekki . . . það var nefnilega ekki skyggni lengra en 25 metra!

Jæja, þá var það sjálf uppgangan. Nú var ísöxin allt í einu orðinn besti vinur manns því að manni vildi skrika fótur á hjarninu, en upp mjökuðumst við og að lokum var stoppað og broddarnir reimaðir undir skóna. „Loksins!“, hugsaði ég, enda búinn að hanga í næstu manneskju hálfa leiðina upp hjallann. Nú var haldið áfram og klöngrast yfir sprungur og alltaf var haldið áfram upp, upp og meira upp, ætlaði þetta aldrei að verða búið? Jæja, allt í einu var sagt: „Bara 100 metrar eftir!“, maður fylltist orku og þrótturinn streymdi um æðar og vöðva.

Arnar rölti um með GPS tækið og allt í einu stoppaði hann, „við erum komin“ sagði hann. Við vorum búin að vera slétta 8 tíma á göngu, sem sé eitt dagsverk að fara á hnjúkinn en heimleiðin eftir. Þvílík yndisleg tilfinning, eins gott að þetta var komið, fæturnir voru næstum búnir. En það mátti ekki stoppa

lengi, veðrið var afleitt, eiginlega bara bylur og læti. Júlli reif upp fánann og við stilltum okkur upp til myndatöku. Við vorum á toppnum, fyrst af okkar fólki.

Næsti hópur kom þegar við vorum búin að gera okkur klár til að fara niður og enn einu sinni heyrðist sagt glaðbeittum rómi í manninum fyrir aftan mig . . . „Bless Hafrún!“

Nú tók við aðalævintýrið, við villtumst aðeins út af réttri slóð og allt í einu vorum við komin inn í mitt sprungubelti í snarbröttum hlíðum Hnjúksins; aðeins til baka, aftur niður, yfir sprungu og aðra, upp aftur, fleiri sprungur. Nú var orðið kalt, mikið stoppað á meðan leiðsögumenn reyndu að finna færa leið sem tókst fyrir rest. J

Nú var arkað sömu leið til baka og nú var helmingur hópsins samferða í þremur línum, smá nestisstopp áður en mannbroddarnir voru teknir undan skónum og haldið af stað niður skriðjökulinn.

Nú var maður dreginn niður, sumum lá greinilega á að komast niður og komast í góða sturtu eftir erfiði dagsins!

Maður fann hvernig hnén bólgnuðu og þegar við stoppuðum neðst á skriðjöklinum til að taka af okkur línuna var maður kominn með staurfót á hægri, en úff við vorum ennþá í nokkur hundruð metra hæð. En niður var haldið með smá grettum og hléum og eftir rúmlega 14 klst. göngu var komið aftur á bílastæðið. Þreyttir og lúnir ferðalangar, þetta ætluðum við aldrei að gera (ég ætla samt aftur á næsta ári).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband